HrefnaA Handverk

Ég er Hrefna Aradóttir og hef tálgað handverk úr við í yfir tuttugu ár. Minn helsti efniviður hefur verið Alaskavíðirinn þó inn á milli skríður rekaviður, gamlir húsgagna fætur og ýmislegt fleira sem hnífurinn bítur á.

Jólasveinarnir
Þetta byrjaði allt með jólasveinum.
1998 urðu þeir fyrstu til og alla tíð síðan hef ég tálgað jólasveina, mest af þessum mjóu með bandinu til að hengja t.d. á jólatré, eða nota í aðrar skreytingar. Síðan stækkuðu sveinarnir og nú geri ég þá líka í styttuformi, þá er enginn eins því ég læt greinina ráða. Einhverjar sveigjur og greinar verða að húfu eða nefi. Þeir eru eins ólíkir og þeir eru margir, það er alltaf svipur með þeim en hver og einn alveg einstakur. Síðan hafa einnig orðið til jólasveinar til að hengja á vegg, þeir eru oftast úr einhverjum rekaviði, ónýtum girðingarspítum, eða bara einhverju afgangstimbri sem ég kemst yfir. Ég hef líka endurunnið fætur af húsgögnum, sófum og stólum, og skorið í þá jólasveinaandlit og sett kertahaldara ofaná.
Til að auka á fjölbreytnina hef ég einnig gert ýmsar útfærslur með máluðum jólasveinum, ég hef málað þá á þvottaklemmur, búið til merkispjöld fyrir pakka, skreytt eldspýtustokka og fleira. Jólasveinarnir hafa alla tíð verið aðal handverkið mitt.
Sérpantanir
Ég hef oft á tíðum tálgað tilefnisstyttur eftir sérpöntunum. Þar eru einna helst fermingarstytturnar, þó inn á milli læðast brúðhjón og fjölskyldur. Stytturnar eru allar unnar útfrá nákvæmum myndum af viðfangsefninu til að fanga smáatriðin. Stytturnar eru einnig alltaf andlits lausar.